*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 31. mars 2017 17:12

Frjáls markaður á ferðinni í HR

Bandarískur íhaldsmaður ásamt frjálshyggjumanni, aðgerðasinna frá Guatemala og breskum fjármálamanni ræða heimsmálin ásamt utanríkisráðherra á ráðstefnu í HR.

Ritstjórn
Aðsend mynd

„Þessir fyrirlesarar varpa nýju ljósi á mörg mál, sem við Íslendingar þurfum að skoða vel: Brexit, Trump, Venesúela, siðferði viðskipta,“ segir Hannes H. Gissurarson prófessor.

Er um að ræða fund, sem Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema, Austrian Economics Center í Vín og RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, halda saman í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. Apríl kl. 11. 

Alþjóðleg fundaröð í fyrsta sinn á Íslandi

Fundurinn í HR er hluti af alþjóðlegri fundaröð, sem kallast „Free Market Road Show“ eða Frjáls markaður á ferð, en fundaröðin nær nú í fyrsta sinn hingað til lands.

Hannes segir, að stuðningsmenn frjálsra alþjóðaviðskipta séu áhyggjufullir þessa dagana, því að margir stjórnmálamenn virðist vilja takmarka þau, þótt til þeirra megi rekja bætt lífskjör þorra jarðarbúa hin síðari ár. 

Ritstjóri íhaldsblaðsins National Review

Á fundinum á laugardag talar fyrst John Fund, sem var lengi einn af ritstjórum Wall Street Journal, en er nú einn af ritstjórum National Review og kemur líka reglulega fram á Fox News. 

Hann er bandarískur íhaldsmaður, sem hefur gagnrýnt Donald Trump harðlega, enda er Fund eindreginn stuðningsmaður frjálsra viðskipta. 

Siðferðisvörn fyrir frjálshyggju

Einnig talar kunnur bandarískur hagfræðingur, Dwight R. Lee, sem hefur skrifað margar bækur til varnar frjálshyggju, sérstaklega frá siðferðilegu sjónarmiði. Eftir ræður þeirra verða erindi og umræður.

Eftir hádegi, kl. 13:30, er umræðuefnið viðsjár um víða veröld, því að eins og Hannes bendir á búum við ekki við alþjóðlegan frið þrátt fyrir fall kommúnismans. Skálkaríki og ofbeldissamtök eins og Norður-Kórea, Kúba, Íran og Ísis láta ófriðlega. 

Aðgerðarsinni í Suður Ameríku

Þar talar aðgerðasinni frá Guatemala, Gloria Álvarez, sem hefur verið sjónvarpsfréttakona og barist gegn sósíalisma í allri Rómönsku Ameríku. 

Hún hefur sérstaklega gagnrýnt stjórnarfarið í Venesúela og á Kúbu. 

Fjármálaráðgjafi og utanríkisráðherra 

Einnig talar Gordon Kerr, sem er fjármálaráðgjafi og rekur líka Cobden-setrið í Lundúnum, en það heitir eftir Richard Cobden, einum helsta baráttumanni fyrir frjálsum viðskiptum á 19. öldinni. Eftir ræður þeirra verða erindi og umræður.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun líka ávarpa samkomuna. Hannes segir, að aðgangur sé ókeypis og allir velkomnir, ekki síst frjálslyndir og forvitnir, ungir og gamlir. Fundinum lýkur kl. 15:30, en um kvöldið koma ráðstefnugestir saman á Bar Petersen, frá 21:00.