Frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi liggur fyrir á Alþingi og bíður nú umsagnar allsherjar- og menntamálanefndar. Finnur Árnason, forstjóri Haga, viðurkennir að Hagar hafi skoðað málið ítarlega en þar sem félagið er skráð á markað vildi hann ekki gefa upp tölur eða smáatriði um áætlanir félagsins. Engu að síður segir hann að félagið telji það skynsamlegt að áfengi verði leyft í matvöruverslunum.

„Við teljum að það sé þjóðhagslega hagkvæmt,“ segir Finnur. „Þetta mun spara tíma og fjármuni fyrir þjóðfélagið í heild. Við erum tilbúin að hlýða öllum þeim reglum sem verða sett um söluna á þessum vöruflokki. Að mörgu leyti þá er skynsamleg nálgun að okkar mati í frumvarpinu. Ég held að þessi umræða sé þannig að eitt er að ákveða hver selur þetta, hvort það er ríkisverslun eða önnur verslun, síðan er alveg sjálfstæð ákvörðun hvaða umgjörð á að vera á þessum söluflokki. Við teljum að þetta styrki landsbyggðarverslun verulega og gerir það að verkum að við getum hugsað okkur að opna verslanir með sama verðlagi og í Reykjavík á stöðum sem við höfum ekki getað opnað í dag sökum fámennis í kringum þær verslanir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .