Pólsk stjórnvöld ætla að leggja fram löggjöf sem veita sveitastjórnum frjálsar hendur til þess að fjarlægja styttur og minnismerki sem "heiðra einræðisstjórn kommúnista". Þrátt fyrir að löggjöfin sé boðuð í kjölfar ákafra deilna Eista og Rússa um sovéskt minnismerki í Tallin leggur menningarmálaráðherra Póllands, Kazimierz Ujazdowski, áherslu að hún tengist því máli ekki: Vinna við löggjöfina hófst mörgum mánuðum áður en sú deila braust út.

Ujazdowski segir að löggjöfin miðist við að veita lægri stjórnsýslustigum í landinu auknar heimildir til þess að fjarlæga minnismerki og styttur sem heiðra á beinskeyttan máta einræðistímabil kommúnista í landinu. Hann segir að þörf sé á því að fjarlægja þau minnismerki sem móðga og særa þjóðarstolt Pólverja. Hinsvegar tekur hann fram að ekki verður átt við þau minnismerki sem heiðra hetjulund sovéskra hermanna og segir menningarmálaráðherrann ekki hægt að saka stjórnvöld um óvirðingu gagnvart þeim.

Samskipti Rússa við ýmsar nágrannaþjóðir, sem áður tilheyrðu áhrifasvæði Sovétríkjanna, hafa verið stirð undanfarin ár. Orkumál og eldflaugavarnir hafa grafið undan samskiptunum svo einhver dæmi séu tekin og nú síðast virðist staðsetning stytta nægja til þess að kalla fram spennu. Rússar urðu sem kunnugt er æfir á dögunum yfir ákvörðun Eista að fjarlægja styttu af sovéskum hermanni úr miðborg Tallin og staðsetja hana í opinberum hermannagrafreit og brutust meðal annars út mótmæli í borginni. Ýmislegt bendir til þess að þau mótmæli hafi ekki verið sjálfsprottin: Til að mynda var fullyrt í tímaritinu The Economist í síðustu viku að starfsmenn rússneska sendiráðsins hafi fundað með leiðtogum mótmælanna áður en þau brutust út. Einnig hefur komið fram að árásir á vefsvæði eistneskra yfirvalda hafi verið gerðar úr tölvum sem eru með IP-tölur sem eru skráðar á rússnesk yfirvöld.

Pólska löggjöfin verður lögð fram í næsta mánuði. Óljóst er hvort að hún muni leiða af sér sambærilega deilu og hefur átt sér stað á milli Rússa og Eista. Nýleg ummæli utanríkisráðherra Rússlands, Sergey Lavrov, útiloka slíkt ekki. Á mánudag voru uppi ásakanir um að Evrópusambandið (ESB) og Atlantshafsbandalagið (NATO) beittu sér fyrir því að ríki sem áður tilheyrðu áhrifasvæði Sovétmanna vanvirtu minningu sovéskra hermanna og að þau endurskrifuðu söguna. Samskipti Pólverja og Rússa hafa verið sérstaklega stirð undanfarin ár. Pólverjar óttast afleiðingar þess að ný gasleiðsla sem fyrirhugað er að byggja muni ekki fara gegnum landið á leið sinni frá Rússlandi til Evrópu og hafa meðal annars beitt fyrir sér innflutningsbanni á pólsku nautakjöti til þess að koma í veg fyrir frekari samstarf ESB og stjórnvalda í Moskvu í orkugeiranum. Á sama tíma bera rússnesk stjórnvöld kvíðboga fyrir því að hluti eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjamanna verði staðsett í Póllandi.