Frjálshyggjufélagið legst eindregið gegn frumvarpi Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra um að refsa beri afurðastöðvum sem kaupa mjólk sem framleidd er án ríkisstyrkja.

Þetta kemur fram í ályktun frá Frjálshyggjufélaginu en stjórn þess segir að tilgangur frumvarpsins sé augljóslega sá að koma í veg fyrir samkeppni með því að bregða fæti fyrir ný fyrirtæki í greininni.

„Hér er á ferðinni gróf aðför að atvinnufrelsi í landinu. Landbúnaðarráðherra kemur fram í þessu máli sem varðhundur þröngra ríkisvarinna sérhagsmuna, sem hygla búskussum á kostnað dugmikilla bænda,“ segir í ályktuninni.

„Íslenskur landbúnaður getur aldrei staðið undir nafni sem atvinnugrein á sama tíma og bændur reiða sig að stórum hluta á styrki úr opinberum sjóðum. Hér á landi hafa risið upp dugmiklir bændur sem bjóða kerfinu birginn með stofnun nýrra fyrirtækja, sem vilja fá að starfa án opinberrar stýringar. Það er gegn þessum fyrirtækjum sem landbúnaðarráðherra ræðst til þess að vernda einokun og fákeppni gamla tímans.“

Þá kemur fram í ályktuninni að Frjálshyggjufélagið harmi að alþingismenn, sér í lagi þingmenn Sjálfstæðisflokks sem telji sig málsvara frjálsrar verslunar, skuli halda merki einokunar og fákeppni á lofti í þessu máli.