Um það bil 30% lánþega hjá Frjálsa fjárfestingabankanum eru gengnir í hagsmunasamtök skuldara hjá sjóðnum. Það jafngildir um 500 manns. Frjálsi fjárfestingabankinn er hættur starfsemi og undir slitastjórn. Samtökin telja mjög mikilvægt að láta reyna fljótlega á hvort hægt er að kaupa kröfunar til baka af skilanefnd sjóðsins þannig að skuldararnir eignist eigin skuldir með afföllum.

Samtökin heita Hagsmunasamtök lánþega Frjálsa fjárfestingabankans,  HL, og hefur Guðmundur Andri Skúlason vélstjóri einkum beit sér fyrir stofnun þeirra.

Samtökin eru meðal annars mynduð til að standa straum af aðkeyptri vinnu t.d. aðstoð lögfræðings og sérfræðings í bankamálum.

Telja skilmálabreytingar ólögmætar

Hluti af kröfugerð lántaka snýst um að þeir telja að beit sé ólöglegum viðmiðum við innheimtu lánanna. Sjónarmið Frjálsa fjárfestingarbankans hf. eru þau að bankinn telur ótvírætt vera um erlent lán að ræða, svokallað myntkörfulán. Lánið tekur breytingum skv. gengi Seðlabanka Íslands og uppreiknast þannig. Á það fallast skuldarar ekki.

Skilmálabreytingar sem skuldurum hefur verið gert að undirrita í framhaldi af greiðsluáskorun er því að þeirra mati byggð á röngum forsendum og ógild, enda telja þeir hvergi getið þeirra gagna sem benda til að höfuðstóll lánsins hafi skyndilega hækkað eins og uppreikning lánsins sýnir.

Við skilmálabreytingu hafði gengið breyst.   Kröfuhópurin telur að í báðum tilvikum sé verið að sýna jafnvirði lánsins á mismunandi tíma í íslenskum krónum. Lánið er eftir sem áður í erlendri mynt og m.v. gengi viðkomandi myntar á hverjum tíma.