Stjórnendur Frjálsa fjárfestingarbankans, sem nú er í slitameðferð, hafa ákveðið að bjóða viðskiptavinum bankans sem tóku gengisbundin lán við erlendar myntir, að fá möguleika á lækkun höfuðstóls með breytingu í verðtryggðar eða óverðtryggðar íslenskar krónur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Gert er ráð fyrir að lækkun höfuðstóls verði um 26 prósent að meðaltali og greiðslubyrðin minnki um allt að 41 prósent. Úrræðið stendur til boða frá 14. desember til loka febrúar á næsta ári.

"Frjálsi fjárfestingarbankinn er stoltur af að kynna viðskiptavinum sínum skuldbreytingarlausn sem tekur bæði á vanda vegna höfuðstóls erlendra lána og aukins greiðsluþunga eftir fall íslensku krónunnar. Viðskiptavinum Frjálsa fjárfestingarbankans stendur til boða 26% lækkun höfuðstóls að meðaltali þegar láni er skuldbreytt í íslenskar krónur. Lækkunin tekur mið af myntsamsetningu og lengd lánasamnings. Við skuldbreytinguna verður lánið að íslensku verðtryggðu láni, 25 eða 40 ára, með föstum 3,95% vöxtum í þrjú ár og möguleika á lengingu um eitt ár fyrir skilvísa greiðendur. Eftir það verða fastir vextir lánsins 5,25%," segir í tilkynningu frá bankanum.

Jafnframt standa viðskiptavinum til boða fastir óverðtryggðir 6,95% vextir í þrjú ár með lengingu í eitt ár fyrir skilvísa greiðendur. Þeir vextir breytast síðan í millibankavexti (REIBOR) + 1,50% en viðskiptavinum er einnig frjálst að skipta yfir í fasta verðtryggða 5,25% vexti, að því er segir í tilkynningu.

Margir viðskiptavina bankans hafa glímt við mikinn vanda vegna gengisbundinna lána en bankinn lánaði m.a. töluvert til húsbygginga.

Með aðgerð þessari geta lántakendur í viðskiptum við Frjálsa fjárfestingarbankann lækkað greiðslubyrði sína af erlendum fasteignalánum um allt að 41% og um allt að 20% ef miðað er við greiðslubyrði eftir greiðslujöfnun erlends láns.