Stjórn Frjálsa fjárfestingabankans hefur komist að samkomulagi við Kristinn Bjarnason um að hann hætti sem framkvæmdastjóri bankans en jafnframt verður starfsmönnum bankans fækkað um nær helming.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Þar kemur fram að Kristinn hefur starfað frá árinu 1996 hjá bankanum og gegnt starfi framkvæmdastjóra síðastliðinn 8 ár. Ingólfur Friðjónsson forstöðumaður lögfræðisviðs bankans mun taka tímabundið við sem framkvæmdastjóri bankans.

Þá kemur fram að frá því að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar SPRON og skipa skilanefnd hefur verið unnið að framtíðarskipan Frjálsa fjárfestingarbankans sem er dótturfélag SPRON.

„Ákvörðun hefur verið tekin um að fara í umfangsmiklar breytingar á rekstri bankans,“ segir í tilkynningunni.

„Starfsmönnum verður fækkað um nær helming og annar rekstrarkostnaður lækkaður með hagræðingu og minni umsvifum í rekstri. Bankinn mun sjá um að innheimta og þjónusta útlán sín áfram og unnið verður að því að hámarka verðmæti annarra eigna bankans.“