Frjálsi lífeyrissjóðurinn þarf ekki að skerða réttindi og lífeyri sjóðfélaga í tryggingadeild sjóðsins þrátt fyrir þann ólgusjó sem ríkti á verðbréfamörkuðum árið 2008.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum en þar kemur fram að tryggingafræðileg staða sjóðsins var neikvæð um 4,8% í lok árs 2008 sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um.

„Frjálsi lífeyrissjóðurinn fór ekki varhluta af erfiðleikum á fjármálamörkuðum árið 2008,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.

„Aðgerðir í Eignastýringu Kaupþings, sem er rekstraraðili sjóðsins, höfðu þó miðað að því að minnka markvisst áhættu með því að auka vægi ríkisskuldabréfa og selja hlutabréf. Þannig tókst að draga verulega úr neikvæðum áhrifum á eignasafn Frjálsa lífeyrissjóðsins sem endurspeglast í ávöxtun sjóðsins árið 2008.“

Þá kemur fram að hrein eign sjóðsins var í árslok rúmlega 68 milljarðar kr. og jókst um 2 milljarða á árinu. Fjöldi sjóðfélaga í árslok var tæplega 42.000 en um 15.400 manns greiddu iðgjöld í sjóðinn á árinu.