Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið  valinn besti lífeyrissjóður á Íslandi annað árið í röð af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE).

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka en sjóðurinn er í rekstri hjá bankanum.

„Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram að eignastýring Frjálsa lífeyrissjóðsins hafi  gengið vel þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Jafnframt hafi sjóðurinn aukið gagnsæi í fjárfestingum og eflt samskipti við sjóðfélaga til að upplýsa þá sem best um stöðu sjóðsins.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur áður unnið IPE-verðlaun. Í fyrra fékk sjóðurinn sömu verðlaun sem besti lífeyrissjóður á Íslandi og árið 2005 var sjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í flokknum Uppbygging lífeyrissjóða.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er um 90 milljarðar að stærð og sjóðfélagar eru rúmlega 40.000. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 12% lágmarksiðgjald og jafnframt hentar hann þeim sem vilja ávaxta viðbótarlífeyrissparnað sinn.

IPE er eitt virtasta fagtímarit Evrópu um lífeyrismál. Árlega veitir tímaritið þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati sérfræðinga IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Hollenski lífeyrissjóðurinn ABN AMRO var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni,“ segir í tilkynningu