*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Fjölmiðlapistlar 23. júní 2018 13:43

Frjálsir fjölmiðlar

Allir stjórnmálamenn segjast styðja tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun. Sem fyrr getur breytnin verið á aðra leið.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku tæpt á tjáningarfrelsinu og hvernig sumir stjórnmálamenn vilja vega að því, að því er virðist til þess að tryggja að ekki taki aðrir til máls um stjórnmál en þeir sem hafi til þess leyfi og fjárstuðning hins opinbera, þ.e.a.s. þá stjórnmálaflokka og framboð, sem þegar eru komnir með menn á þing eða í sveitarstjórnir.

Tjáningarfrelsinu er fleiri hætta búin vegna afskipta stjórnmálamanna, en eins og svo oft búa þar oft að baki göfugar hvatir og góður ásetningur. Það eitt tryggir ekki góðar afleiðingar.

                                                               ***

Allir stjórnmálamenn segjast styðja tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun. Sem fyrr getur breytnin verið á aðra leið, eins og Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins (og stofnandi, útgefandi og fyrsti ritstjóri Viðskiptablaðsins) benti á í fyrirtaksgrein á miðopnu Morgunblaðsins í gær. Það sé nefnilega ekki nóg að menn tali fyrir frjálsri fjölmiðlun í öðru orðinu en aðhafist það svo helst að standa vörð um ríkisrekna miðlun frétta og upplýsinga í hinu.

Þar beindi Óli Björn orðum sínum að Ríkisútvarpinu (RÚV), sem njóti þess að vera „í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálamanna“. Hinir frjálsu fjölmiðlar berjist í bökkum, en einu gildi í hve miklum ólestri reksturinn er á RÚV, þar vænkist fjárhagurinn stöðugt með gjöfum úr ríkissjóði.

Til þess að gera illt verra eigi stjórnmálamenn svo mikið undir velvilja RÚV og góðum samskiptum, að þeir skirrist flestir við því að gagnrýna stofnunina eða krefjast breytinga á henni. Fyrir vikið fari nær engin umræða fram um grundvöll stofnunarinnar eða hvernig farið sé með fjármuni þar á bænum.

                                                               ***

Fjárhagslegar stoðir RÚV eru sterkar, en árið 2017 rann 4,1 milljarður króna úr vasa skattgreiðenda í fjárhirslurnar í Efstaleiti. Við það bættust 2,3 milljarðar í auglýsingatekjum, svo alls voru heildartekjur RÚV 6,4 milljarðar. Það eru meira en 18.000 krónur á hvert mannsbarn í landinu eða tæpar 24.000 krónur á hvern fullorðinn landsmann.

Það er frekar dýr áskrift þegar menn hafa áskrifendafjöldann í huga og einnig hitt, að þar hafa áskrifendurnir ekkert val um að segja miðlinum upp og því þarf ekkert tillit að taka til efna þeirra eða þolgæðis á efnisval eða áskriftarverð.

Aftur á móti hafa flestir frjálsir fjölmiðlar landsins búið við æ erfiðara rekstrarumhverfi. Líkt og flestir þekkja hefur breytt fjölmiðlaumhverfi – þar sem ókeypis fréttaveitur netsins minnka lestur og eftirspurn, en félagsmiðlar á borð við Facebook grafa undan tekjumöguleikum – þrengt stöðu þeirra mjög. Að ekki sé minnst á hitt að þurfa að þola samkeppni RÚV, sem kærir sig kollótt um allt slíkt; það má sífellt sækja meira fé í varasjóð: vasa skattgreiðenda.

Það eru þó engan veginn einu þrengingar frjálsra fjölmiðla, því hækkun virðisaukaskatts á blaðaáskriftir úr 7% í 11% árið 2015 reyndist þeim flestum mjög erfitt. Þar höfðu áskriftarmiðlar það val að reyna að koma kostnaðaraukanum yfir á neytendur, með tilheyrandi uppsögnum áskrifta, nú eða með því að skera niður í rekstrinum og gera miðlana rýrari í roðinu.

Þetta gerði samkeppnisstöðu áskriftarmiðla vitaskuld mun lakari gagnvart frímiðlum, sem ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur gagnvart neytendum hvað það varðar, þó auðvitað beri auglýsingasala virðisaukaskatt. Erlendir keppinautar á borð við Facebook bera hins vegar engar slíkar klyfjar. Og vegna þess að áskriftin að RÚV er skattur, ekki afnotagjald, ber hún engan virðisaukaskatt.

Við blasir að þessi staða miðlanna er afar ójöfn, hún mismunar miðlunum eftir rekstrarformi, hún veikir þá marga en hyglar nokkrum útvöldum og engum eins og RÚV.

                                                               ***

Þessi aðstöðumunur hefur komið nokkuð til tals á síðustu dögum, þar sem einkareknir ljósvakamiðlar segja RÚV hafa nýtt yfirburðastöðu sína enn frekar með því að hreinsa upp allt auglýsingafé með stórsamningum í kringum heimsmeistaramótið í fótbolta. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur hins vegar svarað því til að RÚV hafi uppi hefðbundna viðskiptahætti og að þar hafi í engu verið brugðið út af þeim leikreglum sem tíðkast hafa. Það er vafalaust rétt og varla er hægt að álasa auglýsendum fyrir að sækja í það gríðarlega vinsæla sjónvarpsefni, sem heimsmeistarakeppnin er, ekki síst nú þegar Íslendingar taka þátt í henni í fyrsta sinn.

Vandinn er sá, eins og Óli Björn bendir á í grein sinni, að leikreglurnar eru óréttlátar. Það er vitlaust gefið.

                                                               ***

Þær áhyggjur eru ekki nýjar af nálinni. Til þess að jafna leikinn var þannig skipuð sérstök nefnd til þess að gera tillögur um hvernig gera mætti rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla réttlátara og lífvænlegra.

Formaður hennar, Björgvin Guðmundsson (annar gamall ritstjóri Viðskiptablaðsins!), kynnti tillögurnar í lok janúar, en þær fólu m.a. í sér að einkareknir miðlar fengju endurgreiddan fjórðung framleiðslukostnaðar við fréttamiðlun, RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði, áfengisauglýsingar yrðu leyfðar í íslenskum fjölmiðlum á ný og sitt hvað fleira.

Þær tillögur mæltust misvel fyrir eins og gengur, en eftir því var tekið að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafði ýmsar efasemdir um þær. Hún brá því á það óvenjulega ráð í lok mars að fá Fjölmiðlanefnd til þess að fara yfir tillögurnar og gera nýjar tillögur!

Svo skemmtilega vill til að framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar er Elfa Ýr Gylfadóttir, en hún hafði einmitt verið í fyrri nefndinni. Í minnihlutanum.

Það út af fyrir sig vekur auðvitað spurningar um góða og óháða stjórnsýslu, en nú virðist fyrst vera farið að örla á hinum nýju tillögum, sem auðvitað eiga sáralítið skylt við hinar fyrri.

Í stað hins augljósa, að taka til við endurskoðun hinnar fullkomlega misheppnuðu tilraunar um Ríkisútvarpið ohf., markmið og skyldur RÚV, rekstrargrundvöll og stjórnun (nægar eru nýlegar ástæðurnar), virðast stjórnvöld vilja taka upp nýtt og flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja, bara eins og hvorki Sovétið né Sambandið hafi nokkru sinni dáið.

Að sögn mennta- og menningarmálaráðherra er í bígerð stofnun sérstaks fjölmiðlasjóðs, sem eigi að styrkja gerð menningar og fréttaefnis, blaðamannasjóðs sem styrki rannsóknarverkefni óháð miðlum og (ta-da!) dreifbýlissjóðs fyrir miðla í dreifbýli! Aukin heldur komi vel til greina að fara að deila út þróunar- og nýsköpunarstyrkjum og beina rekstrarstyrki ef vill.

                                                               ***

Það er út af fyrir sig umdeilanleg hugmynd að ríkisvaldið haldi úti fjölmiðlum. Hættan á misnotkun þeirra er augljós, ekki síst eins og hjá RÚV ohf., þar sem stjórnin er einstaklega veik gagnvart stjórnendum og starfsmönnum, að ekki sé sagt veiklunduð, sbr. nýleg dæmi þar sem fréttastofan mátti beygja sig undir ætlaða peningalega hagsmuni stofnunarinnar.

Hitt er þó enn hættulegra, að hinir frjálsu fjölmiðlar landsins séu gerðir háðir opinberum styrkjum og kommissörum ríkisvaldsins með þessum hætti. Hvernig má treysta því að miðlarnir reynist staðfastari en aðrir gagnvart þeim, sem haft geta líf þeirra og dauða í hendi sér? Hvernig getur almenningur treyst því að þeir ræki sitt ríka eftirlitshlutverk gagnvart stjórnvöldum og stjórnmálamönnum ef þeir eiga allt sitt undir því að styggja þá ekki?

Þetta er ekki aðeins vond hugmynd, hún er hættuleg fyrir tjáningarfrelsið, lýðræðið og almenning í landinu.

Aftur á móti má fagna hinu, að ráðherrann virðist vilja draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Eins því að það virðist eiga að efna fyrirheit í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um að afnema virðisaukaskatt af áskriftartekjum fjölmiðla. Í því felst viðurkenning á vandanum og vilji til þess að gera frjálsa fjölmiðlun lífvænlega og sanngjarna. En hitt, það er stórhættulegt.

Stikkorð: RÚV