Þrír þingmenn Frjálslynda flokksins vilja að ríkisstjórninni verði falið að kanna möguleika á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna í samráði og samstarfi við norsk stjórnvöld.

Reynist þess ekki kostur vilja þeir að kannaðir verði möguleikar á að taka upp evru sem gjaldmiðil, með eða án samráðs við Evrópusambandið. Þremenningarnir hafa lagt fram tillögu þessa efnis á Alþingi. „Sú hugmynd að tengjast norsku krónunni byggist á því að Ísland og Noregur eru í Evrópska efnahagssvæðinu saman, eiga sameiginlegan menningararf og sameiginlega sögu að hluta til og slíkt mælir a.m.k. ekki á móti því að reynt sé að ná auknu samstarfi við Noreg," segir m.a. í greinargerð tillögunnar.

Þingmennirnir segja þar enn fremur að að mikilvægt sé að íslenska þjóðin taki ekki versta kostinn, flotkrónu og áframhaldandi verðtryggingu, þegar völ sé á öðrum mun betri.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Jón Magnússon. Meðflutningsmenn eru Guðjón A. Kristjánsson og Grétar Mar Jónsson.

Tillöguna í heild má finna hér.