Sarkozy lýsti iðnaðarstefnu sinni á kosningafundi í Lille í síðustu viku. Þar lagði hann töluverða áherslu á nauðsyn þess að vernda innlendan iðnað. Boðaði hann fundarmönnum þau tíðindi að hann myndi bjóða Frökkum upp á "raunverulega iðnaðarstefnu" yrði hann kjörinn forseti. Í sögulegu samhengi hefur frönsk iðnaðarstefna, eða "dirigimste" eins og þarlendir nefna hana, snúist um frumkvæði ríkisvaldsins í því að móta heildarstefnu fyrir einstaka geira hagkerfisins.

Söguleg skírskotun til stefnumála fyrri leiðtoga fimmta lýðveldisins varð enn skýrari á föstudag þegar hann fundaði með ungum athafnamönnum í París. Þar sagði hann að ríkisvaldið hefði lykilhlutverki að gegna í því að tryggja hagsmuni fransks iðnaðar og að ekki væri eingöngu hægt að láta markaðsöflin ráða framþróun hagkerfisins. Í ræðu sinni nefndi Sarkozy frumvæði Charles de Gaulle, fyrsta forseta fimmta lýðveldisins, í uppbyggingu kjarnorkuiðnaðarins í landinu sem gott dæmi um hvernig ríkisvaldið geti nýst til þess að byggja upp og styrkja ákveðna geira hagkerfisins. Þann áratug sem de Gaulle sat á forsetastól var blómatími franskrar iðnaðarstefnu.

Þessi áhersla Sarkozy á verndarstefnu hefur vakið upp furðu víða. Neelie Kroes, sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), sagðist í viðtali við breska blaðið Financial Times vera "þrumu lostin" yfir ummælum forsetaframbjóðendans og ítrekaði að hagsmunir Frakka fælust í því að styðja hinn sameiginlega markað og auknar fjárfestingar þvert á landamæri sambandsins. Hún bætti því ennfremur við að tími fyrirtækja sem hefðu hagsmuni sína samofna við hagsmuni ríkisvaldsins og verndarstefnu væri liðinn.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.