Árið 2015 var frjósemi íslenskra kvenna 1,81 barn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei farið lægra frá því að mælingar hófust árið 1853. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í dag.

Árið 2015 fæddust 4.129 börn á Íslandi, sem er nokkur fækkun frá árinu 2014 þegar það fæddust 4.375 börn. Það komu 2.119 drengir og 2.010 stúlkur í heiminn árið 2015, sem jafngildir 1.054 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Frjósemi á Íslandi hefur verið með því hæsta sem gerist í Evrópu á síðustu árum. Árið 2014 var frjósemi yfir tveimur í Frakklandi (2,01) og í Tyrklandi (2,17) en þess utan voru öll löndin undir tveimur. Þá var frjósemi að meðaltali 1,58 í 28 löndum Evrópusambandsins árið 2014.

Meðalaldur mæðra hækkar

Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn síðar á ævinni en áður var. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldurinn hækkað og var 27,4 ár í fyrra. Algengasti barneignaaldurinn er á milli 25-29 ára.

Á þessu aldurbili fæddust 116 börn á hverjar 1.000 konur í fyrra. Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu í fyrra var 7,9 börn á hverjar 1.000 konur.