Óttar Guðjónsson er í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út núna á fimmtudaginn. Þar ræðir hann meðal annars um háa raunvexti á Íslandi og segir að núverandi ástand myndi froðu sem muni falla og býst við gengisfellinu um „svona 25 prósent“.

Nýlega birtist greining frá Samtökum atvinnulífsins þar sem kom fram að raunvextir á Íslandi væru þeir hæstu innan OECD-ríkjanna og aðhaldsstefna Seðlabankans væri ein sú strangasta þar.

„Lánasjóðurinn er ánægður með að fá góða ávöxtun á eigið fé og hagsmunir hans eru helst að vextir séu sem hæstir. Það eru hins vegar ekki hagsmunir eigenda lánasjóðsins, þ.e. sveitarfélaganna, að vextir séu háir. Sveitarfélögin eru að fá lánað á þriggja prósenta raunvöxtum, sem er að mínu mati mjög hátt. Að lána á þriggja prósenta raunvöxtum fyrir áhættulausa fjárfestingu er mjög hátt. Ef hagkerfið er að vaxa um þrjú til fimm prósent þá finnst mér það ekki ganga upp að áhættulaus fjárfesting sé þrjú prósent. Hvernig á að vera svigrúm fyrir áhættufjárfestingu að skila einhverju umfram þessi þrjú prósent hagvöxt?“ segir Óttar.

Hann segir að fræðilega séð þá sé eðlilegt áhættuálag um fimm prósent, þ.e. fræðilega er eðlilegt að munur á áhættulausri fjárfestingu og t.d. hlutabréfum sé um fimm prósent.

„Ef sú áhættulausa er að skila þremur prósentum þá þyrfti sú áhættusama að skila um það bil átta prósent. Hagkerfið getur ekki skilað átta prósenta hagvexti, og því getur þetta ekki verið svona mikið, þetta gengur ekki upp. Þetta veldur spennu sem ég held að valdi ofrisi á ávöxtun á hlutabréfum og ýmiss konar eignum sem síðan leiðréttir sig til baka. Ég tel að þetta valdi misvægi í verðlagningu fjármálaafurða sem stenst ekki. Þú býrð til „cappuccino“, sem þýðir að það verður froða sem mun síðan falla niður þegar mað­ur lætur bollann standa.

Ég tel því að það verði að vera stefna að raunvextir fari í um eitt prósent, mætti líka alveg fara lægra, og það þarf að leita allra leiða til að það gerist. Þegar Seðlabankinn gengur út frá því að raunvextir séu þrjú prósent, þá er svolítið erfitt að setja önnur markmiðið. Ég er sjálfur á þeirri skoðun að vextir séu of háir, það veldur illindum og deilum í þjóðfélaginu og mikilli tilfærslu verðmæta milli þjóðfélagshópa. Önnur afleiðing af háu vaxtastigi er innflæði fjármagns spákaupmanna. Krónan hefur verið að styrkjast og við erum búin að halda niður verðlagi með styrkingu krónunnar, til hvers? Til þess að hún geti fallið meira þegar hún fellur loksins? Laun í landinu eru að hækka um átta prósent, í Þýskalandi hækkuðu þau um eitt prósent, hvernig höldum við að þetta geti gengið svona til lengdar án þess að þetta leiði til gengisfellingar? Ætli gengið muni ekki falla um svona 25 prósent og þá leiðréttist þetta allt.“

Nánar er rætt við Óttar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með því að smella á Innskráning.