*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 3. júní 2017 18:17

Froðufréttir

„Frétt vikunnar er líkast sú að búð hafi verið opnuð suður í Garðabæ og að sumir hafi verið mjög ánægðir með það og aðrir alls ekki.“

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Frétt vikunnar er líkast sú að búð hafi verið opnuð suður í Garðabæ og að sumir hafi verið mjög ánægðir með það og aðrir alls ekki. Ekki er að efa að Costco-menn voru ánægðir með umfjöllunina, betri auglýsingar er vart hægt að óska sér.

En þó að einhverjum hafi máske fundist nóg um opinberan ákafa manna, með og á móti Costco, þá var ekkert að því að segja þessar fréttir. Tugþúsunda Facebook-hópur segir sitt um áhuga almennings, en svo er ekki hægt að horfa hjá því að hér ræðir um meiriháttar kjaramál fyrir fólk.

Og ekki ný saga, menn muna enn kjarabætur Pálma í Hagkaup og Jóa í Bónus, óskabarn þjóðarinnar, einokunarverslunina og afnám hennar, kaupskipaákvæði Gamla sáttmála og það allt, sem varla þarf að lýsa í smáatriðum fyrir lesendum Viðskiptablaðsins.

* * *

En það er þetta með skoðanir fólks á Costco. Nú má hafa þær ýmsar og í góðu lagi ef fólk vill tjá sig um þær á félagsmiðlum. Slíkar skoðanir eiga þó varla erindi í fjölmiðla nema þær séu þeim mun rökstuddari, nú eða að staða þess, sem heldur þeim fram, gefi þeim aukið vægi.

Um daginn var t.d. gerð frétt úr því á Vísi, að Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, teldi að Costco nið- urgreiddi bensín til þess að lokka fólk í búðina. Fyrir þessu var enginn rökstuðningur, bara einhver grunur Árna, sem honum fannst greinilega mjög óþægilegur og velti upp þeirri hugmynd að það ætti kannski bara að banna niðurgreiðslur á bensíni! 

Það er mjög á mörkunum að það sé tilefni fréttar, að talsmanni þrýstihóps þyki annað ósennilegt en eitthvað og sé þegar kominn með lausnir á þeim ímyndaða vanda sínum. Nema auðvitað fréttin snúi að því að talsmaðurinn sé í ruglinu.

Önnur frétt kom í DV í tilefni af Facebook-nótu Sóleyjar Tómasdóttur, fv. borgarfulltrúa vinstrigrænna, en hún er svona fremur efins um frelsi og framtak, sýnist manni, og sá ekkert jákvætt við Costco. Gott og vel, en af hverju ætti það að vera frétt? Sóley hefur dregið sig úr skarkala stjórnmálanna, er flutt af landinu og er háskólanemi í Hollandi. Engar Costco-verslanir eru á meginlandi Evrópu. Í því ljósi er afar erfitt að sjá að skoðanir hennar á Costco hafi sérstakt gildi utan vinahóps hennar á Facebook.

* * *

Í fyrradag var fimmdálkamynd á forsíðu Fréttablaðsins, ljóslega með einhverjum stórtíðindum. Lestur myndatextans slökkti þó skjótt í þeim vonarneista:

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri spókar sig um í Philadelphiu, ásamt borgarstjóranum James F. Kenney. Dagur er ásamt sendinefnd frá borginni að kynna sér skipulag og starfsemi alþjóð- flugvallarins í Philadelphiu ásamt því að ræða samstarfsmöguleika á sviðum viðskipta og menningar. 

Nú hefur áður verið bent á það að borgarstjórinn virðist eiga sérstaklega greiða leið í forsíðumyndir Fréttablaðsins, en þessi mynd var samt eitthvað sérstaklega innantóm. Eða kannski meira eins og það vantaði eitthvað í hana. Og jú það vantaði eitthvað.

Fréttablaðið lét nefnilega alveg vera að geta þess að myndin var ekki tekin á vegum blaðsins. Hún var tekin af ljósmyndara Icelandair, en borgarstjórinn, föruneyti, fjölmiðlafólk og ýmist ókeypislið annað, fór í boðsferð á vegum félagsins til Philadelphia í tilefni fyrsta flugs Icelandair á nýrri flugleið. Ekkert rangt við það, en fjölmiðlar verða að greina frá slíku undanbragðalaust.

* * *

Annað vantaði við þessa mynd af Degi. Á henni voru nefnilega þrjár manneskjur, en aðeins tveir karlar á myndinni nafngreindir. Engin deili voru hins vegar sögð á þeldökkri konu, sem stóð þar með þeim. Það er því gaman að því, að það skyldi vera fyrrnefnd Sóley Tómasdóttir, sem upplýsti það á Facebook, að hún héti Folasade Olanipekun-Lewis og væri bara framkvæmdastjóri alþjóðaflugvallarins, sem borgarstjórarnir voru svo praktuglega að kynna sér.

* * *

Enn eitt má segja að hafi vantað í fjölmiðlaumfjöllun af því hvernig borgarstjórinn spókaði sig vestra. Það rifjast nefnilega upp, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór í samskonar boðsferð á vegum Icelandair til Edmonton í Kanödu fyrir þremur árum, að DV (forveri Stundarinnar) linnti ekki látum um þá för, á hvaða hóteli SDG hefði gist, hvernig dagpeningum hefði verið háttað, hvaða kostnaður hefði hlotist af ferðinni og hvort hún væri yfirhöfuð siðferðislega verjandi. Engar slíkar spurningar hafa vaknað nú.

Stikkorð: Fjölmiðlarýni Costco