*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 18. janúar 2018 17:24

Fröllutollurinn verndar ekkert

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkinu sé heimilt að leggja 76% toll á franskar kartöflur.

Ritstjórn
Tollurinn á franskar kartöflur er hæsti prósentutollur í íslensku tollskránni.
epa

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkinu sé heimilt að leggja 76% toll á franskar kartöflur. Innflutningsfyrirtækin Innnes og Hagar töpuðu í dag málum þar sem látið var reyna á tollheimtuna. Hægt er að nálgast dóminn hér

Ríkið hélt því fram fyrir dómi að tollurinn væri ætlaður til almennrar tekjuöflunar og fullyrti að tollurinn væri ekki verndartollur fyrir innlenda framleiðslu. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda komu ekki fram neinar skýringar í málsvörn ríkisins á því hvers vegna tollurin væri svo hár sem raun ber vitni eða hvers vegna franskar kartöflur ættu að vera tekjulind fyrir ríkið umfram aðrar vörur. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um þessa tollheimtu rúmaðist innan fjárstjórnarvalds íslenska ríkisins.

Félag atvinnurekenda segir „fröllutollinn“ vera Íslandsmet í tollheimtu, en tollurinn á franskar kartöflur er hæsti prósentutollur í íslensku tollskránni.

„Niðurstaðan er að sjálfsögðu vonbrigði og allur málflutningur íslenska ríkisins í þessu máli er afar öfugsnúinn,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Þessi tollur hefur áratugum saman verið rökstuddur sem verndartollur, en er núna allt í einu fjáröflunartollur. Hér liggur nú fyrir dómur Hæstaréttar sem fastbindur þessa afstöðu íslenska ríkisins og frá henni verður því ekki horfið. Tollurinn verndar einfaldlega ekkert. Það þýðir það eitt að Alþingi er í lófa lagið að afnema þennan toll, rétt eins og 59% toll á snakk sem var aflagður fyrir rúmu ári með tilheyrandi hagsbótum fyrir neytendur. Það sama á við um þessa tvo tolla; þeir vernda enga innlenda landbúnaðarframleiðslu og eru fyrst og fremst vernd fyrir innlenda iðnaðarframleiðslu, sem notar að stórum hluta innflutt hráefni.“