Frakkar hyggjast setja á laggirnar nýja alþjóðlega sjónvarpsstöð til höfuðs bandarísku fréttastöðinni CNN. Franska ríkið á frumkvæðið að stofnun stöðvarinnar og sér einnig um fjármögnun, en stöðin mun bera heitið France 24, segir í frétt Financial Times. Áætlað er að útsendingar hefjist í nóvember, bæði á ensku og frönsku, en fyrst verður efninu útvarpað á netinu og svo skömmu síðar í sjónvarpi.

Forseti Frakklands, Jacques Chirac, segir að sjónvarpsstöðin sé mikilvægt verkfæri til að koma ímynd Frakklands rétt til skila í alþjóðaumhverfinu. Talið er að sjónvarpsstöðin sé ein af síðustu tilraunum Chiracs til að skapa arfleið sína, segir í fréttinni, en hann er nú á sínu öðru tímabili og líklega því síðasta.

Forstjóri stöðvarinnar, Alain de Pouzilhac, segir Bandaríkin og Frakkland ekki líta heiminn sömu augum, en Bandaríkjamenn leitast við að finna samsvörun við aðrar þjóðir á meðan Frakkar leggja áherslu á það sem ólíkt er. Pouzilhac talar af virðuleik um þrjá helstu samkeppnisaðila sína, hann segir CNN takast vel til að sýna heildstæða mynd af alþjóðasamfélaginu, hann hælir BBC fyrir fagmennsku og segir al-Jazeera sýna heim Arabaþjóða í gegnum vestræn augu.

Pouzilhac bætir því við að hann stefni að því að sjónvarpsstöðin verði markaðssett í líkingu við Coca-Cola vörumerkið, sem hann segir að hafi tekist að halda alþjóðlegri stefnu, sem samt sé nægjanlega sveigjanleg til að koma til móts við siði og venjur einstakra landa. Stofnkostnaður var um 1,4 milljarðar króna og mun fjárveiting ríkisins verða á bilinu 6 til 6,5 milljarðar á ári.

Vegna gríðarlegs kostnaðar sem fylgir því að halda úti sjónvarpsfréttastöð hafa þau lönd sem vilja senda út sína heimssýn að mestu notast við útvarpssendingar, segir í fréttinni. France 24 mun minnka rekstrarkostnað að verulegu leyti með því að nota myndefni og fréttamenn frá hluthöfum stöðvarinnar, en þeir eru France Télévision, ríkissjónvarp Frakklands og TF1, eigandi stærstu sjónvarpsstöðvar Frakklands.

Spurningar hafa vaknað um hvort fréttastöðvar geti talist sjálfstæðar séu þær ríkisreknar og svarar Pouzilhac því með að benda á sjálfstæði og trúverðugleika BBC fréttastofunnar. Trúverðugleiki BBC hefur þó að einhverju leyti unnist með deilum og ósætti við bresku ríkisstjórnina, segir í fréttinni og játar Pouzilhac því og segir að sjálfstæði stöðvarinnar gæti leitt til ósættis, en bætir við að frá stofnun stöðvarinnar hafi hann ekki fengið neinar kröfur né fundið fyrir þrýstingi af hálfu frönsku ríkisstjórnarinnar.