Samkvæmt því sem lesa má úr frumvarpi til nauðarsamninga, sem eigendur Eglu hafa lagt fyrir kröfuhafa sína, þá var það mat ráðgjafa þeirra frá einum stærsta og virtasta banka Frakklands að kaupverð hlutanna í Búnaðarbanka Íslands á sínum tíma væri allt of hátt miðað við verðlag sambærilegra banka í Evrópu, einkum Norður Evrópu.

„Það var því með blendnum huga sem kaupendur gengu frá kaupunum. Ljóst var að þunglega gæti horft með ávöxtun kaupverðsins, nema til hagræðingar kæmi á íslenskum bankamarkaði og BÍ yrði hluti af henni,“ segir í skýrslunni til kröfuhafa. Þessar upplýsingar eru forvitnilegar í ljósi þeirrar gagnrýni sem salan fékk á sínum tíma. Líklegt má telja að þessar ráðleggingar hafi komið frá franska bankanum Societe Generale sem aðstoðaði við kaupin.

Kaupin á hlutunum í Búnaðarbanka Íslands hf. áttu sér stað vorið 2003 og skömmu síðar var ákveðið að sameina Búnaðarbankann og Kaupþing banka hf. Gekk sú sameining eftir í júní 2003. Eignaðist Egla hf. við það 15,83% hlut í sameinuðum banka. Hlutir í hinum sameinaða banka hækkuðu mikið fyrstu mánuðina. Lætur nærri að Egla hafi tvöfaldað hlut sinn á fyrsta árinu.

Kaupverðið fjármagnað með lánum frá Landsbankanum

Til að útskýra upphaf málsins má benda á að í ársbyrjun 2003, eftir kaup Eglu á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. (BÍ), voru hluthafar félagsins þrír, þ.e. Ker hf. eigandi 49,5%, Vátryggingafélag Íslands hf. eigandi 0,5% og þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGAA (H&A) eigandi 50%. Eignarhald þess síðastnefnda hefur síðan verið tilefni mikils ágreinings.

Egla hf. keypti hluti í BÍ fyrir 7,8 milljarða króna er tóku til 32,6% alls hlutafjár bankans. Eigið fé Eglu hf. í byrjun voru 3,4 milljarðar króna sem hluthafar greiddu með hlutafjárhækkun í marsmánuði 2003, en hlutafé var síðan aftur hækkað í desember 2003, þegar síðari hluti kaupverðsins til ríkisins var greiddur, þá um 1,7 milljarða króna, til að félagið héldi umsömdu 65% eiginfjárhlutfalli. Að öðru leyti var kaupverðið fjármagnað með lánum frá Landsbanka Íslands hf.

Færðu hlutinn undir hollenskt eignarhaldsfélag

Í september 2006 var 10,82% hlutur Eglu í Kaupþingi banka hf. færður beint undir hollenskt eignarhaldsfélag, Kjalar Invest BV, eins og kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar á þeim tíma. Fyrir lá að Fjármálaeftirlitið gerði engar athugasemdir við ofangreinda eignatilfærslu á þeim tíma.

Þetta var gert í kjölfar samruna Eglu við Fjárfestingarfélagið Vendingu ehf. en saman fóru félögin með 99,99% hluti í dótturfélagi sínu, Kjalar Holding BV, sem á alla hluti í Kjalar Invest BV, sem aftur eignaðist samtals 10,82% í Kaupþingi banka hf. Þessar eignartilfærslur voru ekki til einföldunar en niðurstaðan var að eignarhaldi Eglu hf. og Fjárfestingarfélagsins Vendingar ehf. varð alfarið í eigu sameinaðs félags Kers hf. og Kjalar ehf. sem aftur er að stærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar.