Nú fer brátt að líða að jólum, og órjúfanlegur hluti af jólahaldi margra íslenskra fjölskyldna er að taka sér frí frá annríki hátíð ljóss og friðar, til að hlusta á fagra tóna og sjá prúðbúna söngvara sem skarta sínu fegursta. Í lok árs 2011 tók Viðskiptablað­ið saman rekstur stærstu jólatónleika þess árs – það árið héldu Frostrósir 11 tónleika í tónlistarhúsinu Hörpu, sem 10 þúsund manns sóttu. Því var áætlað að almenningur hefði varið um 50 milljónum króna til þess að hlýða á Frostrósir það árið.

Lýstar kröfur 13 milljónir

En nú er af sem áður var. Félagið Frostroses Entertainment, sem hélt utan um rekstur Frostrósatónleikanna sálugu, hefur nú formlega verið lýst gjaldþrota. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness var búið tekið til gjaldþrotaskipta 16. júní 2016. Engar eignir fundust í búinu og skiptum lauk 7. september. Þetta kom fram í Lögbirtingablaðinu þann 14. október. Lýstar kröfur voru tæpar 13 millj­ónir og skiptastjóri búsins var Sæ­þór Fannberg Sæþórsson. Engar eignir fengust upp í búið. Félagið Frostroses Entertainment var í eigu Samúels Kristj­ánssonar og stóð fyrir árlegum jólatónleikum Frostrósa. Í frétt á Mbl.is kemur fram að samanlagð­ ar skuldir móðurfélags þess námu tvö hundruð milljónum króna árið 2013, þegar félögin skiluðu síðast ársreikningum.

Félagið Frostroses Entertainment tapaði fimmtíu milljónum árið 2013 og þar af tapaði félagið 125 millj­ónum vegna afskriftar hluta kröfu á Frost Culture Company ehf. Eins og áður sagði tók Við­skiptablaðið saman heildartekjur jólatónleikafársins 2011, en þá námu tekjur Frostrósa 70% af heildartekjum jólatónleika þess árs. Samkvæmt útreikningum blaðsins voru heildartekjur af að­ gangseyri tónleika Frostrósa 250 milljónir. En þá hafði Frostroses Entertainment ekki skilað ársreikningi í tvö ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .