Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að líkt og við hafi mátt búast hafi mun færri ferðamenn komið til Íslands í sumar en síðastliðin sumur. Auk þess að vera formaður SAF er hún annar eigenda og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Kötlu DMI. Hún segir veiruna hafa bitnað verulega á rekstri fyrirtækisins.

„Það hefur skipt fyrirtækin máli að fá þó inn einhverja innkomu og geta keyrt kerfin sín í gang aftur. Sumir hafa svo einblínt á innanlandsmarkaðinn til að halda sjóðstreyminu gangandi. En fyrir greinina í heild hefur þetta verið algjört sultarsumar. Sem dæmi hefur Katla DMI hingað til á þessu ári verið að fá inn um 20% af viðskiptum síðasta árs ef miðað er við sama tímabil í fyrra."

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár, tekur í svipaðan streng. „Við höfum fengið góð viðbrögð við okkar tilboðum í allt sumar. Það hefur verið mikið að gera en þrátt fyrir það eru tekjurnar yfir heildina ekki nema tæpur helmingur af því sem þær voru á sama tímabili á síðasta ári. Við höfum því haldið sjó yfir sumarið og hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar hefur svo sannarlega hjálpað til við það. Komandi haust og vetur er hins vegar algjörlega óskrifað blað."

Stefnir í þungan vetur

Friðrik og Bjarnheiður eru sammála um að miðað við óbreytt ástand standi ferðaþjónustan frammi fyrir þungum vetri.

„Íslendingar eru ekki að ferðast mikið innanlands á veturna og munu enn síður gera það meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. Innanlandsneyslan innan ferðaþjónustunnar á veturna hefur aðallega komið til vegna árshátíða, afmæla eða annarra veisluhalda. Atvinnuleysi og efnahagsástandið mun svo hafa áhrif á neyslugetu fólks. Þegar horft er nokkra mánuði fram í tímann má því reikna með að innlend neysla muni skreppa töluvert mikið saman," segir Bjarnheiður.

„Það má reikna með að það sé þungur vetur framundan en yfirvöld hafa þó sýnt það að þau bregðast hratt við breyttum aðstæðum á hverjum tíma. Því er ekki hægt að útiloka að það verði slakað á aðgerðum á landamærum á ný en miðað við stöðuna í löndunum í kringum okkur sé ég það ekki gerast á næstunni. Það bendir því meira til þess en minna að veturinn verði að mestu leyti án erlendra gesta, a.m.k. fyrri hluti vetrar," segir Friðrik.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .