Boðað hefur verið til hluthafafundar hjá Opnum Kerfum Group í dag og er ætlunin að kjósa þar nýja stjórn í kjölfar yfirtöku Kögunar á félaginu. Frosta Bergssyni, fráfarandi stjórnarformanni félagsins, var boðið sæti í hinni nýju stjórn en hann hefur ákveðið að afþakka það.

Í grein sem Frosti ritar í nýjasta fréttabréf félagsins kemur fram að hann telur það heppilegt fyrir sig að taka smá frí og skoða með opnum hug hver hans næstu skref verða. Í greininni tekur hann fram að hann telur að hluthafar í OKG fái sanngjarnt verð fyrir sinn eignarhlut. Boðin var 50% staðgreiðsla miðað við gengi í OKG 26,8 og 50% greiðsla með hlutabréfum í Kögun á genginu 42,8. Frosti bendir á að um síðustu áramót var gengið OKG 19 þannig að hækkun frá áramótum er yfir 41%.