Frosti Bergsson, fyrrum stjórnarformaður Opinna kerfa, og Síminn, hafa gengið til liðs við upplýsingafyrirtækið Titan, sem tekur til starfa á næstu vikum, og fjárfest í félaginu, segir í fréttatilkynningu

Frumkvæðið að stofnun Titan höfðu nokkrir lykilstarfsmenn Opinna kerfa og er gert ráð fyrir að þeir, ásamt fleira starfsfólki, muni eiga þriðjungshlut á móti Frosta og Símanum í nýja fyrirtækinu.

Frosti Bergsson segist hafa komist að þeirri niðurstöðu, að vel athuguðu máli, að þörf væri á endurnýjun á þessum markaði og tækifæri væru nú fyrir hendi til að byggja upp öflugt fyrirtæki sem sérhæfði sig í að sinna þörfum stærri viðskiptavina hér heima og erlendis.

"Vegna mikilla breytinga á eignarhaldi Opinna kerfa undanfarin ár hefur skapast óánægja meðal þýðingarmikilla viðskiptavina félagsins og það hefur síðan valdið ákveðnu óöryggi meðal starfsmanna. Mér rennur til rifja að sjá gamla fyrirtækið mitt í slíkri stöðu og því ákvað ég að ganga til samstarfs við þessa gömlu félaga mína," segir Frosti

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir að þar á bæ hafi menn uppi áætlanir um að stórauka fjölbreytni og gæði allrar fyrirtækjaþjónustu á sviði IP tækninnar. Því hafi Síminn ákveðið að sækjast eftir samstarfi við hið nýstofnaða fyrirtæki. Síminn hafi þegar gert endursölusamning um kaup á búnaði og þjónustu af Titan og í ljósi þess sé áhugavert fyrir Símann að fjárfesta í félaginu.

Í næstu viku mun Titan auglýsa eftir starfsfólki og samningar um húsnæði hins nýja fyrirtækis eru á lokastigi.

Til að byrja með mun fyrirtækið einkum einbeita sér að söluráðgjöf á miðlægum lausnum fyrir stærri fyrirtæki en forsvarsmenn Titans stefna að því að færa hratt út kvíarnar. Fyrirtækið hefur tryggt sér viðskiptasamninga sem veita því umboð til að bjóða vörur frá Cisco, HP, Sun og fleiri þekktum framleiðendum á mjög samkeppnishæfu verði.