Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, líst við fyrstu sín „miklu betur“ á uppfærðar tillögur kröfuhafa Glitnis um uppfyllingu stöðugleikaskilyrða, sem fela í sér afsal Íslandsbanka til ríkisins, heldur en fyrri tillögur kröfuhafanna. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Frosti að honum sýnist sem nýju tillögurnar geti gert útslagið með það að hægt sé að leysa Glitni undan höftum án þess að það valdi óstöðugleika fyrir þjóðarbúið.

Frosti segir það síðan vera aðra spurningu hvort réttara sé að selja Íslandsbanka eða halda honum áfram í eigu ríkisins. „Nú á ríkið einn banka. Ég er alls ekki talsmaður þess að ríkið eigi alla bankana til lengri tíma heldur sé eðlilegra, hugsanlega, tímabundið að bankarnir séu í eigu ríkissjóðs á meðan þetta gengur yfir,“ segir hann.

Ekki hægt að nota féð til að greiða skuldir

Frosti segir mikilvægt að ef svo fer að ríkið selji Íslandsbanka, þá helst til innlendra fjárfesta, þurfi söluandvirði bankans að fara úr umferð. „Það er eitt sem er mjög mikill misskilningur um, að hægt sé að taka þá peninga og nota til að greiða upp skuldir ríkissjóðs eða fara í einhverjar miklar framkvæmdir. Í rauninni er þetta stöðugleikaframlag, sem þarf að taka úr umferð til að það breytist ekki í eignabólu, gengislækkun eða verðbólgu,“ segir hann.

Þú myndir þá ekkert endilega vilja nota þá peninga til að greiða niður skuldir ríkisins?

„Ég held að það sé ekki hægt. Ég hef ekki séð sýnt fram á það að hægt sé að nota þessa peninga, eða nokkra aðra peninga sem koma með stöðugleikaframlögum, til þess að gera það. Vegna þess að þeir sem fengju þá peninga í hendur, sem ættu kröfur á ríkissjóð, fengju þá laust fé í hendur sem færi þá í umferð,“ segir Frosti.

Peningurinn á ekki að vera til

Hann segir laust fé í umferð hafa þrjá möguleika; að fara inn á eignamarkaði og valda eignabólu, ýta undir eftirspurnarþenslu, og valda gengisfalli með tilheyrandi skakkaföllum fyrir lífskjör. „Þess vegna er verið að taka þetta fé úr umferð og eyða því. Það á ekki að vera til.

Við eigum ekki að spyrja okkur hvað fáum við margar krónur frá búunum, vegna þess að þeim þarf öllum að eyða í sjálfu sér, heldur hvað fá búin að breyta mörgum krónum í gjaldeyri. Það er sú tala sem við erum að reyna að lágmarka. Með þessu [tillögum um afsal Íslandsbanka innsk. blm] tel ég að það hafi tekist að nálgast það markmið,“ segir Frosti.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, baðst undan viðtali um uppfærðar tillögur kröfuhafa Glitnis að svo stöddu máli.