Frosti Sigurjónsson hefur nú vikið úr stjórn fjármálafyrirtækisins Arctica Finance og hefur Erlendur Svavarsson tekið sæti í stjórn í hans stað. Erlendur sat áður í varastjórn félagsins.

Frosti var sem kunnugt er kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í alþingiskosningunum  í vor og var efsti maður á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þá hefur Ástríður Þórarinsdóttir tekið sæti í varastjórn.

Frosti hefur á árum áður bæði komið að stofnun og stjórnun ýmissa vel þekktra fyrirtækja hér á landi. Meðal annars gegndi hann um tíma stöðu fjármálastjóra Marel, forstjóra Nýherja og framkvæmdastjóra Dohop þar sem hann hætti árið 2010. Hann er einn af stofnendum Dohop sem og fyrirtækisins Datamarket. Einnig hefur hann gegnt stjórnarstörfum fyrir Datamarket, Arctica Finance, CCP auk annarra fyrirtækja.

Frosti var stjórnarformaður Datamarket en hann sagði nýlega í samtali við Viðskiptablaðið að hann myndi segja sig úr stjórninni þegar hann tæki sæti á Alþingi. Hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa á aðalfundi DataMarket 8. maí síðastliðinn. Þar var kosin ný stjórn og tók Hilmar Gunnarsson við stjórnarformennsku af Frosta. Ekki er búið að tilkynna Fyrirtækjaskrá um breytinguna. Það verður gert á næstu dögum, samkvæmt upplýsingum frá Datamarket.