Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að verði kaupendur Arion banka og Íslandsbanka erlendir aðilar muni þeir eins og aðrir vilja hámarka hagnað bankanna. Hins vegar muni þeir auk þess vilja taka arð þeirra úr landi í gjaldeyri. Þetta skrifar hann í stöðuuppfærslu á Facebook .

Greint var frá því í Kjarnanum í gær að búist sé við því að erlendir fjárfestar í Íslandsbanka verði kynntir til leiks í næstu viku . Þar kom fram að viðræður hefðu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafi sýnt mestan áhuga komi annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína.

Frosti segir að hagnaður Arion banka og Íslandsbanka hafi numið tugum milljarða á ári og erlendur kaupandi gæti þannig sogað hundruði milljarða í gjaldeyri út úr hagkerfinu á einum áratug.

„Mér finnst því afar einkennilegt að það geti samrýmist markmiðum um efnahagslegan stöðugleika og þjóðarhagsmuni að selja erlendum aðilum bankana,“ skrifar Frosti.