Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur áhyggjur af því að kostnaðurinn við byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans leiði til hærri þjónustugjalda fyrir viðskiptavini bankans. Hann hefur einnig áhyggjur af því að ásýnd bankans beri skaða af þeirri ákvörðun að reisa nýjar höfuðstöðvar. Þetta kom fram í viðtali við Frosta í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Spurður um það hvort honum þætti eðlilegt að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, myndi óska eftir hluthafafundi í bankanum til að ræða ákvörðunina segir Frosti: „Það þætti mér mjög eðlilegt, og alveg sjálfsagt.“

Frosti segir ákvörðun bankans um byggingu nýrra höfuðstöðva ekki falla undir daglegan rekstur bankans. Nákvæmlega svona ákvarðanir eigi hluthafar að hafa eitthvað að segja um.

Þetta sé spurning um ásýnd Landsbankans. „Hér hafa erlendir fjárfestar, erlendir bankar og lífeyrissjóðir, tapað þúsundum milljarða á íslenskri bankastarfsemi. Mér finnst mjög óeðlilegt að hér yrði reist einhver montbygging niður við höfn, nánast til að hreykja sér af því,“ segir Frosti.