Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á bloggsíðu sinni að ótímabært sé að selja 30% hlut ríkisins í Landsbankanum, eins og stefnt er að nú.

Segir hann að að teknu tilliti til arðs og vaxta af ríkisskuldum hafi ávinningur ríkisins af því að eiga bankann á þessu ári numið 3-4 milljörðum króna. Gerir hann ráð fyrir að sala á 30% hlut í Landsbankanum gæti skilað á bilinu 70-80 milljörðum í ríkissjóð. Ef sú upphæð væri notuð til að greiða upp ríkisskuldir myndi árlega vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um 2-3 millarða.

Hins vegar hafi arður ríkisins af 98% eignarhlut í Landsbankanum undanfarin þrjú ár numið samtals 53 milljörðum króna. Í ár hafi ríkið fengið 23,5 milljarða í arð af Landsbankanum og ætla megi að ríkið gæti fengið hátt í 20 milljarða í arð á næsta ári. Hefði ríkissjóður verið búinn að selja 30% eignarhlut í bankanum í upphafi árs 2015, hefði arðgreiðslan til ríkisins verið 7 milljörðum lægri.

Segir Frosti jafnframt að tímasetning ætlaðrar sölu sé óheppileg því slitabú föllnu bankanna þurfi að selja eignarhluti sína í Íslandsbanka og Arion banka. Svo gæti farið að allir bankar landsins verði til sölu með skömmu millibili. Svo mikið framboð á hlutabréfum í bönkum geti spillt fyrir því að ríkissjóður nái að hámarka söluvirði 30% hlutarins. Þá segir hann ekki endilega sannað að einkaaðilar séu færari en ríkið í því að reka banka.