Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er óviss um þáttöku Íslands í Innviðafjárfestingabanka Asíu.

Frosti sagði í viðtali hjá Harmageddon á X-inu að hann sé ekki viss um að þáttaka Íslands í stofnun bankans sé skynsamleg.

„Við höfum engin áhrif á stjórn bankans eða stefnuna sem hann tekur. Þetta getur verið stórpólitískt fyrirbæri í framtíðinni,” sagði Frosti. „Við vitum ekki hvaða stefnu bankinn tekur varðandi umhverfismál. Í hverju ætlar hann að fjárfesta? Margt af þessu geta verið vandasöm mál og kannski betra fyrir smáþjóð eins og okkur að vera ekki að blanda okkur í þetta.“

Frosta finnst einnig vafasamt að hvorki Bandaríkin né Kanada vilji vera með í stofnun bankans.

„Þetta virðist vera einhver svona hjarðhegðun, ef öll Norðurlöndin gera þetta, ef einhver Evrópuríki gera þetta þá eigum við að gera þetta líka,” sagði Frosti. „Við eigum líka að velta því fyrir okkur af hverju Bandaríkjamenn vilja ekki vera með, af hverju vilja Kanadamenn ekki vera með, af hverju eru 150 ríki sem ekki vera með?“

Eins og Viðskiptablaðið greindi áður frá var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra viðstaddur stofnfund bankans í Peking um helgina. Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem um nemur 13.000 milljörðum íslenskra króna. Heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnféð nemur um 17,6 miljónum Bandaríkjadala, eða um 2,3 milljörðum íslenskra króna.