Frosti Ólafsson hefur verið ráðinn forstjóri ORF Líftækni hf. Frosti hefur starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands undanfarin ár. Þá hefur hann samhliða stýrt Menntasjóði Viðskiptaráðs, en sjóðurinn er meirihlutaeigandi Háskólans í Reykjavík.

Áður starfaði Frosti hjá Kaupmannahafnarskrifstofu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company. Í störfum sínum hjá McKinsey sinnti hann einkum verkefnum á sviði stefnumótunar og rekstrarumbóta fyrir alþjóðleg fyrirtæki innan lyfja-, orku- og fjarskiptageirans. Frosti er með MBA gráðu frá London Business School og hagfræðigráðu frá Háskóla Íslands og Macquarie University í Ástralíu. Hann situr í stjórn Háskólans í Reykjavík og í fulltrúaráði Verslunarskóla Íslands.

„ORF Líftækni hf. er leiðandi líftækni fyrirtæki, stofnað árið 2001. Fyrirtækið framleiðir og selur sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörur, við læknisfræðilegar rannsóknir og í líftækni. Fyrirtækið hefur þróað erfðatækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur vísinda- og þróunarstarfs hjá fyrirtækinu undanfarin ár og byggir á því að nota fræ byggplöntunnar sem smiðju fyrir þessi prótein. BIOEFFECT vörur fyrirtækisins hafa fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og eru núna seldar í 28 löndum. Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtækjum þess starfa um 50 starfsmenn,“ segir í tilkynningu.