Frosti Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands og mun hefja störf þann 3. september næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu Haga, móðurfélags Olís, til Kauphallarinnar. Frosti tekur við af Jóni Ólafi Halldórssyni sem hætti fyrr í mánuðinum eftir tæplega sjö ára starf.

Frosti hefur áður starfað sem forstjóri ORF líftækni og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Þar áður starfaði hann sem ráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company þar sem hann vann að stefnumótun, rekstrargreiningum og umbreytingarverkefnum fyrir fjölda alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Þá hefur Frosti jafnframt setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja á borð við Íslandsbanka, Controlant , Freyju Framtakssjóði og Háskóla Reykjavíkur. Hann lauk MBA námi frá London Business School árið 2012 og er einnig B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga :

„Frosti býr að víðtækri og farsælli reynslu af fyrirtækjarekstri, stefnumótun og umbreytingarverkefnum, bæði hér heima fyrir og erlendis. Hann þekkir einnig vel til starfsemi Olís og Haga eftir þátttöku í stefnumótunarvinnu á vegum félaganna síðustu misserin. Það er því sérlega ánægjulegt að fá Frosta til liðs við öflugt teymi hjá Olís, til að takast á við fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem bíða félagsins. Það eru spennandi tímar framundan á eldsneytis- og þægindamarkaði, m.a. vegna orkuskipta og breyttrar neysluhegðunar viðskiptavina. Við bjóðum Frosta velkominn í hópinn og hlökkum til samstarfsins.“

Frosti Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Olís:

„Olís er öflugt og rótgróið félag sem hefur spilað mikilvægt hlutverk á íslenskum eldsneytismarkaði í tæpa öld. Það er spennandi tækifæri að fá að leiða þetta sögufræga félag í gegnum þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað á eldsneytis- og þægindamarkaði. Ég hef fengið að kynnast Olís og Haga samstæðunni í gegnum ráðgjafastörf mín á undanförnum misserum og það er ljóst að starfsemin byggir á sterkum grunni og tækifærin framundan eru fjölþætt. Ég hlakka mikið til að hefja störf og er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt.“