„Vonandi verður skemmtilegt fyrir Bjarna að ferðast til Kína. Það er hins vegar alveg óvíst hvort hann á þangað nokkurt erindi því Alþingi hefur ekki staðfest samþykktir bankans og án þess verðum við ekki aðilar.“

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, á Facebook-síðu sinni um ferð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til Kína þar sem hann mun sækja stofnfund Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ríkisstjórnin ákvað í mars síðastliðnum að sækjast eftir því fyrir hönd Íslands að vera meðal stofnaðila að bankanum. Stofnskjöl bankans voru undirrituð af hálfu Íslands og fleiri ríkja í júní.

Segir fjárfestinguna engu skila

Frosti segir samþykktir bankans krefjast undanþágu hans og starfsmanna hans frá sköttum og undanþágur frá fjármálaeftirliti. Í raun og veru verði bankinn hafinn yfir lög og reglur Íslands. Slík fríðindi geti enginn samþykkt án heimildar Alþingis.

Frosti segir að fyrir 2,3 milljarða fjárfestingu Íslands í bankanum fái landið aðeins 0,028% hlut, engin áhrif og engan stjórnarmann. Því sé mjög ólíklegt að fjárfestingin skili íslenskum skattgreiðendum nokkru.

Frosti hefur áður gagnrýnt aðild Íslands að bankanum, meðal annars í bloggfærslu í síðasta mánuði. Í athugasemd við Facebook-færslu Frosta spyr Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hvort fleiri þingmenn meirihlutans deili skoðun Frosta. Hún segist vona að það takist að stoppa málið í þinginu.