Frosti Ólafsson hefur óskað eftir að láta af störfum hjá ORF Líftækni. Hann hefur starfað sem forstjóri fyrirtækisins frá ársbyrjun 2017. Í tilkynningu frá félaginu segir að á þeim þremur árum sem Frosti hafi starfað hjá félaginu hafi heildartekjur þess ríflega tvöfaldast.

Stjórn ORF Líftækni hefur þegar hafist handa við að finna nýjan forstjóra. Frosti mun sinna starfinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn og verður jafnframt stjórn félagsins og stjórnendum innan handar næstu misserin.

„Það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá ORF Líftækni. Við höfum varið síðustu árum í að efla innviði fyrirtækisins samhliða því að styrkja sölu okkar og vörumerki á erlendri grundu. Sú vegferð hefur gengið vel og framundan er næsti kafli í vaxtaferli fyrirtækisins. Ég taldi þetta góðan tímapunkt til að afhenda keflið til nýs aðila og verja meiri tíma með fjölskyldunni minni og einbeita mér að eigin verkefnum. Ég er þakklátur stjórn félagsins fyrir að sýna þeirri afstöðu minni skilning. Mig langar jafnframt að þakka sérstaklega öllu því frábæra starfsfólki sem ég hef unnið með og eru undirstaða þeirrar miklu verðmætasköpunar sem félagið stendur undir,“ segir Frosti í tilkynningu.

„Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Frosta fyrir ánægjulegt samstarf og hans mikilvæga framlag til uppbyggingar félagsins á undanförnum árum.  Staða þess hefur aldrei verið sterkari og það eru spennandi tækifæri sem bíða nýs forstjóra. Við óskum Frosta alls hins besta á nýjum vettvangi,“ segir Sigtryggur Hilmarsson, stjórnarformaður ORF Líftækni, í tilkynningunni.

ORF Líftækni framleiðir og selur sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörurnar, við læknisfræðilegar rannsóknir og í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins. BIOEFFECT vörurnar eru núna seldar í 28 löndum. Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtækjum þess starfa ríflega 70 manns.