Ein leið til þess að sækja fjármuni í ríkissjóð sem hægt yrði að nýta til leiðréttinga á skuldum heimila er að leggja skatt á þrotabú gömlu bankanna. Þetta sagði Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknar. Hann skipar 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður fyrir komandi Alþingiskosningar. Frosti mætti Heiðu Kristínu Helgadóttur, sem skipar 2. sætið á lista Bjartrar framtíðar í sama kjördæmi, í Stúdentahakkavélinni svokölluðu í Stúdentakjallaranum í dag.

Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður, stýrði umræðum, og spurði hvernig Framsókn hyggist fjármagna kosningaloforð um leiðréttingu eða niðurfærslu skulda heimilanna. Hann benti á að þegar hafi verið birtir útreikningar sem sýni að kostnaður við aðgerðirnar gæti numið um 240 milljörðum króna.

Frosti sagði að skattlagning þrotabúa gömlu bankanna gæti skilað meira en 240 milljörðum króna. Þrátt fyrir það myndu kröfuhafar búanna hagnast verulega, sagði Frosti. Hann var í kjölfarið spurður hvort það kæmi til greina að skattleggja allar eignir þrotabúanna eða eingöngu innlendar eignir. Hann svaraði því til að skattleggja ætti eignirnar eins mikið og hægt er.