Flestir, þar á meðal Viðskiptaráð, eru sammála því að skólagjöld skapi ekki aðgangshindrun að menntun. Öflugt lánakerfi gerir nemendum kleift að fjármagna skólagjöld á hagstæðan máta, að sögn Frosta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið fulla ástæðu til að taka umræðuna um skólagjöld á háskólastigi með opinskáum hætti.

„Hinu opinbera er augljóslega mjög þröngur stakkur sniðinn við fjármögnun háskólanna og undir þeim kringumstæðum væri óskynsamlegt að skoða ekki þann kost mjög alvarlega að innheimta skólagjöld í opinberum háskólum. Auknar rekstrartekjur myndu efla gæði náms og rannsókna innan háskólanna sem er algjört grundvallaratriði fyrir samkeppnishæfni þjóða. Samhliða væru skapaðir eðlilegri hvatar gagnvart ákvörðunartöku einstaklinga um háskólanám,“ segir Frosti.

Skólagjöld af hinu góða

Hann bendir á að háskólanám er fjárfesting og æskilegt að nemendur hugsi út í arðsemi menntunar.

„Þegar fólk ákveður að verja þremur til fimm árum í að afla sér menntunar er það að gefa upp á bátinn umtalsverðar tekjur sem hægt væri að afla á vinnumarkaði yfir sama tímabil. Fórnarkostnaður þess tíma sem fólk ver í menntun er eitthvað sem fáir hugsa mikið út í. Skólagjöld á háskólastigi gera fólk meðvitaðri um eigin fjárfestingu í námi og skapa eðlilegan hvata fyrir nemendur til að velja sér fag eða grein sem raunveruleg eftirspurn er eftir úti á vinnumarkaðnum,“ segir Frosti og bendir á að hann telji fyrirkomulag skólagjalda að mörgu leyti mjög undarlega í dag. Lítið samræmi sé í því fyrir hvaða nám sé greitt og í hversu ríkum mæli.

„Við greiðum fyrir meirapróf, ýmiss konar margmiðlunarnám og flugnám, svo ég nefni einhver dæmi. Á sama tíma þarf ekki að greiða fyrir flestar aðrar námsleiðir sem margar hverjar eru mjög dýrar eins og til dæmis tannlækningar. Það er ekki augljóst í mínum huga hvers vegna flugmaður greiðir mun hærri fjárhæð fyrir sitt nám en tannlæknir,“ segir Frosti Ólafsson.