Flestar umsagnir um nýtt frumvarp, sem heimilar lífeyrissjóðum að skrá eignir sínar á First North markaði sem skráðar eignir, eru jákvæðar. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er flutningsmaður frumvarpsins og er bjartsýnn á að frumvarpið nái fram að ganga á þinginu í vor enda ekki pólitískt átakamál.

„Meðal flutningsmanna eru þingmenn frá nær öllum þingflokkum. Umsagnir sem komnar eru, eru flestar jákvæðar og allar gagnlegar sem innlegg í umfjöllun Efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Að mati margra skapar frumvarpið mikilvægt tækifæri til fjármögnunar fyrir smá og meðalstór fyrirtæki á Íslandi. Lífeyrissjóðir munu geta dreift áhættu sinni víðar og fengið betri ávöxtun um leið og þeir örva hagvöxt í landinu með því að efla þau fyrirtæki sem geta mest vaxið. Frumvarpið skapar jákvæðan hvata fyrir smærri fyrirtæki til að undirgangast töluvert strangari reglur en hlutafélagalög setja þeim. Þetta frumvarp er áfangi í því að gera umhverfi íslenskra vaxtarfyrirtækja enn betra."