Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur mikilvægt að gera ákveðnar breytingar á stjórnarskránni en það þurfi að gera í smáum skrefum. Hann telur að setja þurfi ákvæði í stjórnarskrána um beint lýðræði.

Fyrri ríkisstjórn lagði töluverða áherslu á nýja stjórnarskrá og það eru þingmenn sem gera það ennþá. Myndir þú vilja sjá nýja stjórnarskrá?

„Ég tel mikilvægt að gera vissar breytingar á stjórnarskránni en í ljósi reynslu af stjórnlagaráðinu virðist vænlegra að breyta henni í smáum skrefum fremur en að skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni,“ segir Frosti.

Frosti segir að ef eigi að kollvarpa stjórnarskránni geti það falið í sér mikið umrót í lagakerfinu.

„Það þarf að setja ákvæði um beint lýðræði í stjórnarskrá. Tiltekinn hluti kjósenda ætti að hafa vald til að kalla eftir þjóðaratkvæði um þingmál og sömuleiðis komið máli til umfjöllunar á þingi. Aðeins kjósendur ættu að hafa málskotsréttinn en hvorki forseti né þing. Þannig er þessu háttað í Sviss og það hefur reynst þeim vel. Það hefur verið vaxandi þrýstingur á að í stjórnarskrá verði opnað á framsal valds til erlendra stofnana en ég er andvígur því. Slíkt framsal veikir lýðræðið því sá hluti ríkisvalds sem hefur verið framseldur úr landi, fellur út fyrir áhrifasvið kjósandans. Það getur einnig verið ýmsum vandkvæðum bundið að vinda ofan af slíku framsali.“

Frosti er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .