„Ég held að bankarnir eigi ekki að hagnast á öruggri ávöxtun sinni hjá Seðlabankanum. Það er hvergi svoleiðis í heiminum nema hér," segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann telur viðskiptabankana hagnast óhóflega mikið á áhættulausum innstæðum sínum í Seðlabankanum. Hann telur jafnframt að Seðlabankinn greiði viðskiptabönkunum of háa vexti á innstæðurnar.

Bankarnir eiga 206 milljarða króna inni hjá Seðlabankanum. og bera innstæðurnar 5-5,7% vexti. „Það kostar tíu til ellefu milljarða á ári og þetta er allt of hátt, allt of mikið," segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Frosti bendir á að vilji Seðlabankinn binda um 200 milljarða af fé viðskiptabankanna til að draga úr peningamagni í umferð geti hann hækkað bindiskylduna um tvö prósent. „Það er algjör óþarfi að borga bönkunum svona há vexti á svo stóra upphæð," segir Frosti.