Føroya Banki hefur ákveðið að sækja um lánafyrirgreiðslu frá ríkinu til að hækka eiginfjárhlutfall sitt úr 21% í 24%. Í tilkynningu frá bankanum segir að hann sé vel fjármagnaður  og hafi mikið eigið fé umfram lögbundnar kröfur, en þær gera ráð fyrir 8% eiginfjárhlutfalli.

Í tilkynningunni segir að stjórn bankans vilji viðhalda traustri eiginfjárstöðu til að koma í veg fyrir áhrif af áframhaldandi fjármálakreppu. Þá vilji stjórnin tryggja að bankinn hafi yfir að ráða nauðsynlegum eiginfjárgrunni til að fylgja eftir stefnu sinni og áframhaldandi viðskiptaþróun, en í því sambandi sé þátttaka í yfirstandandi samþættingu í danska bankageiranum álitin afar mikilvæg.

Í þessu væntanlega og nauðsynlega sameiningarferli hafi Føroya Banki eðlilegu hlutverki að gegna þar sem hann hafi 9. mesta markaðsvirði banka sem skráðir séu í kauphöllinni í Kaupmannahöfn, en bankinn er skráður tvöfaldri skráningu í Reykjavík og Kaupmannahöfn.