Stjórn Kauphallar Íslands hefur samþykkt aðild Føroya Sparikassi P/F að Kauphöllinni. Þá eru aðilar að Kauphöllinni orðnir 22 talsins, þar af þrír erlendir. Auðkenni Føroya Sparikassi í viðskiptakerfi Kauphallarinnar er FSP.

?Það er ánægjulegt að Føroya Sparikassi hefur bæst í hóp erlendra kauphallaraðila," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. ,,Aðild bankans rennir styrkari stoðum undir færeyska markaðinn sem starfræktur er hér í Kauphöllinni og verður væntanlega til að efla viðskipti í Færeyjum. Við bjóðum bankann velkominn í hóp kauphallaraðila.?

Føroya Sparikassi Group er stærsta fjármálafyrirtæki Færeyja með heildareignir að fjárhæð 872 milljónir evra í desember 2004. Innan samstæðunnar eru fasteignasalan INNI P/F og fjárfestingarbankinn Eik Bank Danmark A/S sem er aðili í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Føroya Sparikassi leggur áherslu á að þjóna bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Á síðustu árum hefur breidd þjónustunnar aukist til muna m.a. með innkomu bankans á verðbréfamarkaðinn. Aðild að Kauphöllinni er skref í þá átt að efla verðbréfahluta starfseminnar enn frekar. Með aðildinni hefur Føroya Sparikassi aðild að tveimur NOREX-kauphöllum, Kauphöll Íslands og Kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Føroya Sparikassi er aðili að Virðisbrævamarknaður Føroya sem gerði samstarfssamning við Kauphöll Íslands í mars 2004 um skráningu færeyskra verðbréfa. Í vikunni verður fyrsta færeyska hlutafélagið skráð og því má búast við að verðbréfaviðskipti í Færeyjum aukist í kjölfarið. Forstjóri Føroya Sparikassi er Marner Jacobsen.