Sætaframboð norræna lággjaldaflugfélagsins Sterling dróst saman á fyrsta ársfjórðungi og félagið flutti 9,4% færri farþega, samanborið við sama fjórðung í fyrra. Að sögn Almars Arnar Hilmarssonar, forstjóra Sterling, má rekja samdráttinn fyrst og fremst til þess að félagið hefur dregið verulega úr sætaframboði. Á sama tíma í fyrra var félagið með 29 vélar í rekstri en aðeins 23 núna.

Þannig er sætanýting 77,5% núna en var 73,5% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þá skiptir miklu máli að nýliðinn mars er með 81,2% nýtingu en var með 74,5% nýtingu í fyrra.

Almar benti á að mikill samdráttur hefði verið í rekstri félagsins. Þannig hefði starfsmönnum verið fækkað um helming og vélum um 15%. "Sömuleiðis hefur verið minna framboð af leiguflugi hjá okkur og það er þar sem minnkunin er mest. Leiguflugið hefur dregist töluvert saman á milli ára á meðan áætlunarflugið er að aukast. Leiguflugið verður stöðugt minni og minni hluti," sagði Almar.

Hann tók fram að ekkert óvænt hefði komið upp og fyrsti ársfjórðungur væri í takt við þeirra væntingar. Sterling er hluti af Northern Travel Group.

Aðspurður sagði Almar að vangaveltur um að félagið færi að fljúga til Færeyja ættu ekki við rök að styðjast.

Sterling birtir ekki niðurstöðutölur ársreiknings fyrir síðasta ár. Í uppgjöri FL Group kemur hins vegar fram að tap Sterling á síðasta ári eftir skatta nam 200 milljónum danskra króna eða 2,3 milljörðum króna.

Tap félagsins árið 2005 nam 850 milljónum danskra króna. Innifalið í þessum tölum Sterling fyrir síðasta ár er allur kostnaður tengdur samruna Sterling og Maersk Air og tap á sölu á flugvél.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var þannig talsvert betri segja heimildir Viðskiptablaðsins. Eigi að síður var niðurstaða síðasta árs talsvert frá því sem væntingar stóðu til.