Farsímanotendur út um allan heim uppfæra síma sína í mun minna magni en fyrir tveimur árum.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en greint er frá því að bandaríska neytendastofufyrirtækið Qualcomm hafi tekið saman gögn um farsímasölu og notendahegðun farsímanotenda út um allan heim.

„Við sjáum skýr merki þess að viðskiptavinir farsímafélaganna gera nú mun minna að því að fá sér nýja síma,“ sagði Paul Jacobs, forstjóri Qualcomm í sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld.

Hann sagði mest áberandi í Suður Kóreu og Japan hversu lengi notendur drægju það að kaupa sér nýja síma, bara uppfærslunnar vegna.

Þannig haldi fólk í síma sína í um tvö ár áður en það kaupir nýjan. Í Bandaríkjunum og í Evrópu skiptir fólk um síma á 9- 11 mánaða fresti að meðaltali en fyrir tveimur árum liðu oftast ekki nema 7-9 mánuðir á milli þess að fólk keypti sér nýjan síma.

„Flestir eru komnir með það sem þeir þurfa í símana sína,“ sagði Jacobs.

„Það eru komnar myndavélar, tónlistaspilarar, leikir, móttökuskilyrði fyrir tölvupóst og ekki síst vafrar. Þess vegna þarf nokkuð mikið til að heilla notendur eigi þeir að skipta um síma af þeirri ástæðu einni að skipta.“