Umsóknum um íbúðalán í Bandaríkjunum fækkaði um 1,5% í síðustu viku frá fyrri viku samkvæmt Mortgage Bankers Association.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar segir að fjöldi umsókna hafi ekki verið lægri síðan í desember árið 2000. Hærri lántökukostnaður, hert útlánaskilyrði og lækkandi fasteignaverð hafi dregið mikið úr veltu á fasteignamarkaði.

„Meðalvextir á 30 ára íbúðaláni í Bandaríkjunum er nú um 6,47% en í janúar voru þeir 5,5% samkvæmt fréttaveitunni Bloomberg. Kostnaður á mánuði af 100.000 USD láni er nú 630 dollarar og hefur hækkað um 62 dollara frá því í janúar,“ segir í Vegvísinum. Auk þess hafi 75% útlánastofnana hert útlánaskilyrði sín samkvæmt könnun seðlabanka Bandaríkjanna en í apríl höfðu um 60% hert skilyrðin.