Á morgun föstudag munu Háskólinn í Reykjavík og Utanríkisráðuneytið, ásamt sex íslenskum fyrirtækjum, setja á fót nýja fræðslu- og rannsóknarmiðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að markmið miðstöðvarinnar verði að efla getu fyrirtækja á Íslandi til að sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu, umhverfi sínu og mannréttindum í daglegum rekstri.

Samningurinn verður undirritaður á fundi sem samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð halda á Radison SAS Hótel Sögu.

Fundurinn hefst kl. 8:15 með ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra en að henni lokinni verður samningurinn undirritaður.

Undanfarna tvo daga hafa norræn fyrirtæki, sem öll eru aðilar að Global Compact, og fulltrúar alþjóðlegra stofnana fundað í Reykjavík um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Global Compact er sáttmáli á vegum Sameinuðu Þjóðanna um siðferði í viðskiptum. Yfir 4000 fyrirtæki um allan heim eru aðilar að þeim samningi.