Íslenskir fjárfestar hafa gengið frá sölu á norska félaginu Viking Redningstjeneste sem er leiðandi fyrirtæki í Noregi á sviði vegaþjónustu. Það var  systurfélag Frumherja hf. sem seldi.

Fyrirtækið er með um 150 þjónustustaði um allan Noreg og 24/7 þjónustuver í Osló. Um 80 manns vinna hjá Viking. Kaupandi að hlutnum var AAC Capital Partners, sem er alþjóðlegur fjárfestingarsjóður með aðsetur í Stokkhólmi eins og kom fram í síðasta Viðskiptablaði.

Framkvæmdastjórn Viking Redningstjeneste á rúman fimmtungs hlut í fyrirtækinu eftir söluna og heldur þannig sínum hlut.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Orra Hlöðverssyni, framkvæmdastjóra Frumherja, er niðurstaða sölunnar ásættanleg fyrir móðurfélag Frumherja og gerir hún eigendum félagsins kleift að standa betur við bakið á starfsemi félaga sinna hér á landi.

Frumherji er í 100% eigu félags sem heitir Spector ehf. sem er í eigu tveggja manna, þeirra Ásgeirs Baldurs og Finns Ingólfssonar .