Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir söluna á eignum félagsins á Akureyri til Samherja ekki tengjast skuldauppgjöri við Landsbankann á neinn hátt. Í samtali við Fréttablaðið segir hann breytt eignarhald ekki hafa teljandi áhrif á starfsmannahald og rekstur.

Skuldir Brims við Landsbankann eru sagðar hafa verið um 24 milljarðar króna sumarið 2008 en Fréttablaðið hefur fengið það staðfest hjá Landsbankanum að bankinn hafi ekki þrýst á um viðskiptin heldur hafi þau verið að frumkvæði Brims. Eins og greint var frá vb.is í gær er kaupverðið 14,5 milljarðar króna og fjármagnar Landsbankinn 11 milljarða þar af. Í Morgunblaðinu kemur fram að Samherji taki yfir 11 milljarða króna skuld Brims við bankann en hluti þess fjár sem Samherji leggi til kaupanna verði nýttur til þess að greiða skuldir Brims við skilanefnd Glitnis. Þar segir að bankinn hafi verið „hlynntur sölunni“ og að hann hafi þrýst á um að Brim létti á skuldum sínum en félagið hafi sjálft fundið kaupanda.