Meira frá Verzlunarskóla Íslands hlaut Citi Client Focus verðlaunin í Brussel. Verðlaunin eru veitt því fyrirtæki sem þykir skara framúr er varðar þarfagreiningu viðskiptavina sinna ásamt því að reyna að meta hverjar framtíðarþarfir þeirra koma til með að verða. Yfir 200 nemendur frá 35 löndum tóku þátt í keppni um fyrirtæki ársins 2017 Í Brussel á vegum Junior Achievement (JA) Europe.

Fyrirtækið Meira var stofnað í janúar á þessu ári í verkefni á vegum JA Iceland - Ungir frumkvöðlar. Í apríl var Meira svo valið fyrirtæki ársins í keppninni á Íslandi og fengu einnig verðlaun fyrir mestu nýsköpunina. Meira er að þróa sparnaðarforrit í farsíma hugsað fyrir ungt fólk. Appið byggir á því að einstaklingur setur sér markmið og getur svo fylgst með hvernig gengur að ná markmiðinu á sýnilegan og skilvirkan hátt.

Einar Karl Jónson forstjóri fyrirtækisins segir að „Okkar markmið hjá Meira er að breyta því hvernig ungt fólk sparar peninga. Við munum hjálpa notendum að ná sparnaðarmarkmiðum sínum og með þeim hætti mun Meira leiða til skynsamari fjármálaákvarðana og auka fjármálalæsi“