Fimm milljörðum króna var varið til stuðnings frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi á síðastliðnum tveimur árum úr sjóðum sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auk styrkja frá ráðuneytinu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um stuðnings við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf.

Í svarinu kemur m.a. fram að um sé að ræða úthlutanir samkvæmt vaxtarsamningum og úr Tækniþróunarsjóði, framlög til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun, úthlutanir úr AVS – rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Framleiðnisjóði landbúnaðarins, og framlög frá Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálastofu og ráðuneytinu. Stjórnvöld styðja jafnframt  annsóknar- og þróunarstarf sem síðar getur leitt til nýsköpunar s.s. á við um Rannsóknasjóð, en sú upphæð er ekki í tölunum. Það sama á við um stuðning og ráðgjöf sem veitt er frumkvöðlum og fyrirtækjum sem stunda nýsköpun, s.s. ráðgjafarþjónusta Impru hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.