Á kynningarfundi í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Íslands fyrir skemmstu voru kynntar niðurstöður úttektar sem unnin var við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð síðasta vetur.

Þar voru frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands borin saman við sambærileg setur í sex öðrum Evrópulöndum. Rannsóknina vann Jóhann Bjarni Kolbeinsson sem lokaverkefni í meistaranámi Rannsóknin í Evrópu var gerð á árunum 2005 til 2008, áður en efnahagskreppan skall á, en rannsóknin á Íslandi var gerð árið 2014, eftir að kreppan skall á.Tilgangur rannsóknarinnar var meðal annars að skoða hvort munur væri á starfsemi frumkvöðlasetra fyrir hrun og eftir hrun.

Helstu niðurstöður rannsókninnar eru þær að menntunarstig íslenskra frumkvöðla er mjög hátt en um 97% þeirra eru með að minnsta kosti eina háskólagráðu. Meðalaldur er jafnframt mjög hár eða 42 ár. Þá kemur fram að aðgengi að frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er mun auðveldara en að frumkvöðlasetrum í Evrópu. Um 77% frumkvöðlanna á Íslandi sögðu að aðgengi að setrunum hefði verið auðvelt, en aðeins 46% aðspurðra í Evrópu sögðu slíkt hið sama. Einnig voru frumkvöðlar í setrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mun ólíklegri til að upplifa einhvers konar vandamál eftir að þeir hófu störf á setrunum en kollegar þeirra í Evrópu.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, fagnar þessari niðurstöðu og gat þess að mikil aukning væri í umsóknum frumkvöðla að setrum stofnunarinnar. „Með niðurstöður Uppsala verkefnisins að leiðarljósi ályktum við að þörfin verði áfram mjög mikil fyrir stuðning af þessu tagi. Við virðumst vera að feta hárrétta braut í þessum efnum. Þjónusta okkar við frumkvöðla og fyrirtæki er sniðin að þörfum hvers og eins og þar kemur sterkt inn sú víðtæka þekking sem er á hinum ýmsu deildum miðstöðvarinnar og stendur frumkvöðlum til boða,“ segir Þorsteinn.

Á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru nú tæplega 80 fyrirtæki sem starfa að margvíslegri nýsköpun.