*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 16. janúar 2021 19:01

Frumkvöðlasetur stuðli að árangri

Sigríður vonar að öflugu starfi frumkvöðlasetra verði áfram haldið þrátt fyrir lokun Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

Andrea Sigurðardóttir
Sigríður Ingvarsdóttir er forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Eva Björk Ægisdóttir

Komið er að tímamótum í sögu frumkvöðlasetra á Íslandi, nú þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands líður undir lok. Viðskiptablaðið tók Sigríði Ingvarsdóttur, forstjóra miðstöðvarinnar, tali á þessum tímamótum og spurði út í framtíð frumkvöðlasetranna.

„Það er í rauninni ekki alveg ljóst enn þá í hvaða farveg allt fer. Ákvörðun ráðherra fól í sér að færa hluta starfseminnar í aðra farvegi og hætta öðru. Þannig verður það líklegast með frumkvöðlasetrin að Tæknisetur, frumkvöðlasetur sem við höfum verið með á Keldnaholti einkum fyrir tæknifrumkvöðla, mun halda áfram starfsemi. Önnur frumkvöðlasetur munu hætta starfsemi," segir hún.

Sigríður vonar að öflugu starfi frumkvöðlasetra verði áfram haldið þrátt fyrir lokun Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. „Ég vona svo sannarlega að einhverjir aðilar muni taka við keflinu og bjóða frumkvöðlum upp á frjóan jarðveg til þess að hefja starfsemi, með því að veita þeim aðstöðu og faglega aðstoð við að koma hugmyndum í framkvæmd."

Yfir helmingur enn starfandi

Nýsköpunarmiðstöðin gaf nýlega út rit um frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir Runólf Smára Steinþórsson. Í ritinu er saga og þróun frumkvöðlasetra á Íslandi reifuð ásamt því sem gerð er grein fyrir árangri og mati frumkvöðlanna á starfseminni.

Árangur fyrirtækja sem hafa haft aðsetur í frumkvöðlasetrum miðstöðvarinnar er um margt eftirtektarverður. Stundum er miðað við að um 80% frumkvöðlafyrirtækja nái ekki flugi, en í ritinu kemur fram að um eða yfir helmingur þeirra 400 fyrirtækja sem haft hafa aðsetur í frumkvöðlasetrum miðstöðvarinnar sé enn starfandi.

„Þetta háa hlutfall endurspeglar að mínu mati hve sprotum er þarna skapaður góður jarðvegur til þess að fá að vaxa. Það er ekki nóg að bjóða bara upp á skrifborð og húsnæði. Það þarf svo margt fleira til, svo sem fagleg aðstoða, gott tengslanet og gríðarlega mikla upplýsingagjöf," segir Sigríður.

Þýðingarmestu fundirnir við kaffivélina

„Þegar ég lít til baka hefur mér þótt hvað mest gefandi að fá að starfa með fyrirtækjunum á frumkvöðlasetrum okkar.  Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fá að vera þátttakandi í þessari vegferð frá því að hugmynd kemur fram og þar til hún er farin að skila hagnaði og ná árangri, en sum fyrirtækin hafa jafnvel gert sig gildandi á alþjóðavísu," segir Sigríður.

Hún segir frumkvöðla hafa mikið gagn af því að starfa undir sama þaki og aðrir frumkvöðlar, þó að verkefnin séu af ólíkum meiði.

„Það var einn góður frumkvöðull sem sagði við mig að hann væri alveg sannfærður um að þýðingarmestu fundirnir sem hann hefði átt um þróunina á sínu fyrirtæki væru þessir óvæntu fundir við kaffivélina. Töfrarnir við frumkvöðlasetrin felast ekki síst í þeirri fjölbreyttu þekkingu og tengslum sem myndast á setrunum." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér