Fyrirtækið Marorka byggir á hugmyndum frumkvöðulsins Jóns Ágústs Þorsteinssonar um orkustjórnun í skipum. Fyrirtæki víðs vegar í heiminum nota orkustjórnunarbúnað Marorku sem er leiðandi á sínu sviði. Jón Ágúst segir áherslur á umhverfismál og mengun gera það að verkum að sífellt fleiri leiti til þeirra til að draga úr eldsneytisnotkun og mengun skipaflota sinna.

En hversu stór er þessi markaður sem þið herjið á?
„Það eru um 50 þúsund skip í heiminum sem við gætum verið að vinna að og gætu notað okkar búnað. Þar af eru um 20-30 þúsund sem við einbeitum okkur að í fyrsta kasti. Þannig að þetta er gríðarlega stór markaður. Við erum
bara með á þriðja hundrað skip í dag.“

Það eru ávallt einhverjir aðilar sem reyna að komast inn á þennan markað sem Marorka starfar á en að sögn Jóns hjálpar saga og trúverðugleiki Marorku þeim mikið. „Þegar verið er að byggja upp svona félag er mjög mikilvægt að skilja ekki eftir óánægða viðskiptavini. Það er mikilvægt að fara frekar hægar yfir og gæta að því að það sem gert er sé í fullri sátt við viðskiptavininn. Oft er það þannig í þessu þróunarferli að mistök eru gerð en ef gætt er að því að vera opinn og heiðarlegur þá eignast maður
góða sögu. Það hefur verið erfitt fyrir þá sem ætla að koma inn á eftir okkur því þeir hafa ekki sögu og reynslu á meðan við höfum 10 ára sögu. Þeir hafa verið að hlaupa frá hálfkláruðu verki og eyðilagt þannig fyrir sér. Þess vegna hefur verið erfitt fyrir þá að koma inn. Þar að auki er þessi orkustjórnunarþekking mjög afmörkuð í heiminum. Þetta er ekki orðin almenn þekking.“

Rætt er við Jón Ágúst í ítarlegu viðtali í Áramót, áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á föstudaginn í tilefni af því að hann fékk frumkvöðlaverðlaun ársins. Í viðtalinu ræðir Jón Ágúst meðal annars uppruna fyrirtækisins, markaðinn sem það starfar á, eigin framtíð og um starfið sem frumkvöðull á Íslandi.